154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:15]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er svolítið þannig að þegar maður lifir og hrærist í einhverjum málaflokki þá fer maður að taka svo mörgu því sem maður veit sem algerlega augljósu og gefnu. Ég ætla kannski bara að svara þessu með því að fara yfir það í hvað þessir 15 milljarðar fara. Kostnaðurinn við að halda uppi hæliskerfi, þetta er kannski — ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Þetta er misskilningur sem þarf kannski að leiðrétta oftar. Hann fer ekki í að hjálpa fólki. Þessi kostnaður fer í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. Það eru lögfræðingar og aðrir sem sinna meðferð umsókna. Það eru tekin viðtöl og annað slíkt. Stærsti liðurinn held ég að sé uppihald einstaklinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd. En hvers vegna þarf að halda þeim uppi? Það er ekki vegna þess að þeir bara geti ekki unnið og eigi svo bágt og séu komnir hérna til þess að leggjast á velferðarkerfið. Nei, það er vegna þess að þeir mega ekki vinna. Meðan einstaklingur er að bíða eftir svari við umsókn sinni þá má hann að jafnaði ekki vinna. Þá þarf að sjálfsögðu að halda fólki lifandi og sem betur fer erum við enn þá öll sammála um það þó að, eins og ég nefndi hérna áðan, það sé alltaf verið að færa hjá manni mörkin.

Málsmeðferðartíminn er allt of langur. Hvar er stysti málsmeðferðartíminn í þessum málum? Hann er langstystur í þeim málum þar sem þykir augljóst hver niðurstaða umsóknarinnar á að vera. Þetta átti við um tíma hjá einstaklingum frá Sýrlandi, einstaklingum frá Úkraínu, einstaklingum frá Venesúela og svo sannarlega ákveðnum löndum þar sem það er svona, hvað eigum við að segja, neikvæð flýtimeðferð, sem átti við einstaklinga t.d. frá Balkanríkjunum. Ef einstaklingur sækir um sem er danskur ríkisborgari þá fer hann í flýtimeðferð og það tekur mjög stuttan tíma. Málin taka lengri tíma ef við ætlum að segja nei, það tekur lengstan tíma að segja nei. Það tekur marga, marga mánuði og svo er það kært og það fer til kærunefndar útlendingamála og allan þennan tíma þarf að halda fólki uppi. (Forseti hringir.) Það er ekki vegna þess að fólk vilji það. Þessir einstaklingar vilja það ekki. (Forseti hringir.) Ég held að ég svari líka bara hv. þingmanni með því að segja að ef meint markmið breytinganna sem voru gerðar í mars væru sönn þá værum við á góðri leið en þau voru það ekki.